Ferill 52. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 52 . mál.


Ed.

52. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60 29. maí 1972.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    1. mgr. 44. gr. orðist svo:
    Áður en mál er höfðað til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar eða beiðst er leyfis til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, skal leita um sættir með hjónum og kanna grundvöll að framhaldandi sambúð. Prestar leita um sættir með hjónum eða löggiltir forstöðumenn trúfélaga. Nú er annað eða bæði hjóna utan trúfélaga eða hvort heyrir til sínu trúfélagi og má þá yfirvald leita um sættir. Mál er ekki unnt að höfða eða leyfi hægt að veita, nema sáttatilraun hafi átt sér stað á síðustu 6 mánuðum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, verður hvorki skilnaður að borði og sæng né lögskilnaður veittur, nema leitað hafi verið um sættir með hjónum og á sáttatilraun að hafa átt sér stað á síðustu 6 mánuðum. Gegnir hér einu hvort skilnaðar er leitað hjá yfirvaldi eða dómsmálaráðuneyti eða dómstólum. Samkvæmt þessu ákvæði leitar sáttanefnd um sættir, „ef bæði fara fram á það eða hvort heyrir til sínu trúfélagi“. Endranær leitar prestur eða forstöðumaður trúfélags um sættir með þeim.
    Með lögum nr. 28/1981 voru sáttanefndir lagðar niður. Eftir það hafa hjón leitað til presta (forstöðumanna trúfélaga) í þessu efni. Dómsmálaráðuneytið telur rétt að tveggja kosta sé völ, sátta hjá presti (forstöðumanni trúfélags) og svo hjá borgaralegu yfirvaldi. Sifjalaganefnd vinnur að heildarendurskoðun laga nr. 60/1972, en þar sem nokkurn tíma mun taka að ljúka því verki telur dómsmálaráðuneytið nauðsyn bera til þess að breyta 1. mgr. 44. gr. laga nr. 60/1972 sem yrði þó aðeins til bráðabirgða.
    Er hér lagt til að yfirvald leiti um sættir í stað sáttanefnda, þ.e. bæjarfógetar og sýslumenn, yfirborgardómari og borgardómarar í Reykjavík og lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli, en auk þess eftir venju og lögum héraðsdómarar, þar sem þeir starfa, og löglærðir fulltrúar þeirra embættismanna sem nefndir voru. Dómsmálaráðuneytið fer ekki með störf yfirvalds í þessu sambandi. Að því er varðar heimild hjóna til að leita atbeina yfirvalds þá er þess sérstaklega getið að þetta eigi við, ef annað eða bæði hjóna standa utan trúfélaga.
    Þar sem hér er aðeins stofnað til breytinga á 44. gr. laga nr. 60/1972 til bráðabirgða er frumvarpið einskorðað við óhjákvæmilega breytingu á 1. mgr. greinarinnar. Bíður heildarendurskoðun greinarinnar eftir frumvarpinu sem sifjalaganefnd vinnur að, svo sem áður greinir.
    Að öðru leyti þykir ekki þörf á sérstökum athugasemdum við frumvarpið.